þriðjudagur, maí 02, 2006

Hinn stóri heimur

Þegar við stigum út úr rútunni hér í Arica klukkan 6 í morgun, leið okkur eins og við hefðum hlaupið fyrir lest á fullri ferð. 41 klukkustunda ferðalag í lélegum rútum fer ekki vel með mann. Við bókstaflega skriðum inn á næsta hótel þar sem við sváfum svo til klukkan fjögur í dag.

Af illri nauðsyn höfum við nú tekið strikið frá Mendoza beint til Lima til að heimsækja ræðismanninn þar, sem er með vegabréf fyrir Snæbjörn. Þetta ferðalag innihélt því, 7 klukkutíma í lítilli rútu þar sem fæturnir okkar komumst ekki einu sinni fyrir, frá Mendoza til Santiago. Bið í rúma tvo tíma eftir rútu frá Santiago til Arica, en þar sem var fullt í flestar rútur á þessari leið fengum við ekki neitt spes sæti í ekkert neitt spes rútu. Í henni var svo skrölt í 31 klukkutíma, einn dag og tvær nætur. Eins og planið var fyrst ætluðum við að taka strax rútu yfir til Lima en ef satt skal segja meikuðum við það bara ekki. 18 tímar í viðbót hljómuðu ekkert sérlega vel á því augnabliki.

Þessi rútuferð var hins vegar einstaklega athyglisverð þótt hún hafi verið svona erfið. Við höfum hingað til leyft okkur að taka aðeins betri rútur þegar við förum í sólahringsrútuferðir. Í þeim rútum geturðu lagt sætið ansi langt aftur, sætin eru breiðari og þægilegri, aðeins þrjú sæti í hverri röð í staðinn fyrir 4 sæti í venjulegum rútum, og það er þjónusta um borð. Í einni ferðinni fengum við meira að segja freyðivín áður en við fórum að sofa. Algjör lúxus sem sagt sem kostar ekkert voðalega mikið meira.

Vegna langrar fríhelgar var hins vegar ekki mikið laust þegar við komum til Santiago frá Mendoza og við þáðum með þökkum þau tvö sæti sem eftir voru, þótt þau væru aftast og við bjuggumst alveg eins við því að þurfa að sitja hliðina á rútuklóstinu í 30 klukkustundir, sem aldrei er sérlega ánægjulegt. Þegar við stigum svo upp í rútuna tókum við eftir að hún var ekkert sérlega hrein. Eiginlega bara soldið ógeðslega skítug. Við létum hins vegar ekki hugfallast þar sem að við uppgötvuðum að klósettið var í miðri rútunni og því ekki hliðina á sætunum okkar. Engin skorkvikindi virtust heldur vera á veggjunum þannig að þar var annar plús. Hinsvegar reyndist erfitt að sofa í þessari rútu og skítalykt af öllu saman, sætunum sem og teppunum og koddunum sem okkur voru lánuð. Á ferðinni var okkur tvisvar gefnar þurrar brauðbollur með sveittri ostsneið sem saman bragðaðist eins og rúsína, eins óskiljanlega og það hljómar. Í eina skiptið sem rútan stoppaði einhvers staðar annars staðar en í sveittri Pullmann-sjoppu (rútufyrirtækið hét Pullmann) vorum við svo sniðug að stökkva inn í þennan svaka súpermarkað og versla nesti fyrir restina af ferðinni (þá voru enn rúmir 18 tímar eftir). Sem betur fer því að fólkið í rútunni virtist vera orðið ansi svangt þegar leið á daginn og horfði svo öfundaraugum á okkur og blótaði okkur eflaust í hljóði. Við létum það ekkert á okkur fá og borðum okkar samlokur og ávexti með bestu lyst.

Okkur brá örlítið í brún þegar við vöknuðum eftir fyrstu nóttina því að rútuþjónninn okkar (hér eru alltaf þjónar í rútunum sem færa manni kaffi, brauðbollur etc. og upplýsa þig um stöðu mála) virtist vera soldið glaseygður. Við fylgdumst með honum í smá stund og komumst að lokum að þeirri niðurstöðu að maðurinn hlyti að vera drukkinn. Hann hreyfðist óheyrilega mikið með rútunni og þurfti að einbeita sér mikið þegar hann helti gosi í glösin hjá okkur. Í langan tíma eftir á fylgdumst við með hvort að rútan væri ekki á réttum vegarhelming. Sem betur fer virtist rútubílstjórinn ekki hafa verið að staupa sig með rútuþjóninum.

Þessi rútuferð var sem sagt að mörgu leyti áhugaverð sérstaklega vegna fólksins sem ferðast með okkur. Það var soldið magnað að sjá muninn á fólkinu sem ferðast í ódýrari rútunum og svo þeim sem hafa efni á að borga aðeins meira. Viðskiptamenn og fínni frúr eru algeng sjón í dýrari rútunum á meðan við urðum ekki vör við neinn í þeirri líkingu í rútunni okkar. Það sem merkilegast var í þessari ferð var án efa sígauna kona sem ferðaðist með okkur. Hún ferðaðist reyndar bara ein með okkur en á rútustöðinni höfðum við séð hana með fjölskyldu sinni. Kannski hefðum við ekki gert okkur grein fyrir að þetta væri sígaunafjölskylda en kona að nafni Filomena, sem við kynntumst á rútustöðinni, sagði okkur frá þeim og varaði okkur við að þau væri mörg hver afskaplega slungin í vasaþjófnaði.

Flökkuþjóð þessi sem kallast hér gitanos eða romanos lifir enn í tjöldum og flakkar á milli borga yfirleitt eftir árstíðum. Þeir hafa einstaklega slæmt orð á sér, bæði vegna þjófnaða og pretta og svo eru þeir að sjálfsögðu þjóð sem vilja ráða sér sjálfir og passa ekki inn í þá þjóðfélagsmynd sem fyrir er. Þeir eiga það líka til að planta sér þar sem þeim sýnist án þess að virða landa- eða eignamörk. Fjölskyldan sem við sáum á rútustöðinni í Santiago samanstóð af mömmu sem var ansi vel komin til ára sinna, en það var hún sem að ferðaðist með okkur, dóttur hennar sem virtist vera um 15-16 ára. Lítill framhleypinn strákur var líka með þeim og okkur grunar að hann sé sonur 15-16 ára stelpunnar. Svo voru þarna 3-4 konur í viðbót en við sáum hins vegar bara einn karlmann á svæðinu, um 35-40 ára, en hann kom ekki inn í hópinn fyrr en seinna. Í kringum þau á rútustöðinni myndaðist stór hringur, ekki af fólki, heldur stórt hringlaga svæði sem enginn þorði að hætta sér nálægt. Þau höfðu voðalega hátt og voru ekkert að lækka niður í sér. Þau töluðu saman á Romani tungumáli sem við skyldum hvorki upp né niður í. Unglingsstelpan vatt sér upp að lögreglumanni sem stóð þar nálægt og spurði, eða nánast öskraði á greyið lögregluþjóninn, hvar maðurinn sem við sáum svo síðar væri. Hann virtist þá hafa verið færður í yfirheyrslu af lögreglunni. Þegar hann kom loksins á svæðið var hann voðalega rogginn og mikill með sig, algjör macho. Konurnar voru auðþekkjanlegar af síðum pilsum og föt þeirra allra voru mjög marglit. Þau sátu öll ofan á stórum pokum sem innihélt eflaust aleigu þeirra. Filomena benti okkur á að þetta væru eflaust með fátækari sígaunum svæðisins þar sem að margir þeirra eiga nú pallbíla sem þeir flakka um á. Fyrst héldum við að öll fjölskyldan myndi ferðast með okkur í rútu en þegar allt kom til alls var það aðeins gamla konan. Hún sat ská á móti okkur hinum megin við ganginn og fengum við því gott útsýni yfir aðfarir hennar í rútunni.

Sígauna kona þessi var eflaust að nálgast 70 árin, tannlaus en hafði þó yfir gervitönnum að ráða þótt við sæjum hana aldrei taka þær úr sér né setja þær upp í sig. Feitlagin var hún og íklædd víðum pilsi, það ytra hvítt með fjólubláu blómamunstri og hið innra svar-og hvítmunstrað. Prjónapeysa hennar var skærbleik með svörtu mynstri og yfir allt saman var hún klædd allt of stórum svörtum leðurjakka. Sokkar og hennar voru marglitir, en í þeim mátti finna liti eins og skærgrænan, gulan og neon bleikan. Til að setja punktinn yfir I-ið var hún í gullskóm. Henni var mjög umhugað um hár sitt og var alltaf að laga það. Hárið sjálft var rauðleitt og stuttklippt. Hún hafði tvær fléttur frá sittihvorri hliðinni sem hún batt í hnút í hnakkanum. Yfir það setti hún klemmu í líku fjöðurs. Utan um höfuðið vafði hún svo skærgrænni slæðu með silfurpallíettum. Rauðu hliðartöskuna sína faldi hún undir öðru pilsinu sem gerði það að verkum að hún leit ennþá bústnari út. Já, þetta var litrík kona.

Fólk var almennt hrætt við greyið konuna, enda var hún nú ekki frýnileg á að líta með hvassan og hörkulegan svip sem olli því að fólk forðaðist að vera nálægt henni. Hún byrjaði á að setjast í vitlaust sæti og maðurinn sem átti að sitja þar þorði ekki einu sinni að minnast á það. Það endaði líka á því að hún fékk að halda tveimur sætum út af fyrir sig alla ferðina. Hamstraði svo 4-5 kodda og 3 teppi. Hún fékk líka tvær brauðbollur. Meðferðis hafði hún tveggja lítra kókflösku sem eitthvað sterkt hafði verið blandað út í og bragðaði á því í tíma og ótíma. Þegar allt kom til alls var hún svo bara ágætis ferðafélagi, þótt við hefðum nú ekkert spjallað við hana, var gaman að hafa hana svona nálægt til að sjá hætti hennar og framkomu, þótt í mýflugumynd væri.

Þessi rútuferð var því, þótt erfið væri, einstaklega áhugaverð. Við gerðum okkur einhvern veginn enn betur grein fyrir því hversu stór og margvíslegur þessi heimur er sem við lifum í og hversu lítinn hluta hans maður þekkir.

5 Comments:

Blogger Sigurjón said...

Úff. Ég kalla hana nú samt góða að leggja í 30 klst. rútuferð á þessum aldri.
Harðir þessir sígaunar.

2/5/06 17:27  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég held að þetta sé án efa skemmtilegasta lesning um rútuferð sem ég hef nokkurn tímann lesið :)

2/5/06 18:36  
Blogger Erna Blöndal said...

Æðisleg frásögn!

Knús til ykkar!

2/5/06 21:01  
Anonymous Nafnlaus said...

Já, þessi kona virðist mögnuð. Þið eruð ekkert smá frökk að sitja róleg á móti henni alla ferðina fyrst hún er svona slyngur þjófur ;) Vanntar ykkur eitthvað
Hvernig leggið þið í allar þessar rútuferðir og hvað ætlið þið séuð búin að eyða mörgum klukkustundum af ferðinni í rútu?

Ég er eitt stórt spurningamerki vænntalega vegna þess að ég og fínu frúrnar værum góðir ferðafélagar ;)

2/5/06 22:13  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

2/3/07 16:47  

Skrifa ummæli

<< Home