fimmtudagur, maí 04, 2006

Frumskógarnætur III

Síðasti hluti færslunnar með hinum einstaklega klysjulega titli, Frumskógarnætur, sem gæti eins hentað væmnum ástarreifara, lýsir aðallega 3 dögum og tveimur nóttum í þessari ágætu ferð.

Við lögðum af stað snemma um morgun og hristumst og skókumst um á litlum mótor-kanóa í u.þ.b. 4 tíma. Við vorum því mjög fegin þegar við loksins fengum að stíga úr bátnum og upp á þurrt land. Aðallega vorum við samt þakklát fyrir að þurfa ekki að setjast alveg strax á hörðu trébekkina í bátnum aftur. Upp frá litlu plankabryggjunni sáum við tréhús standa upp á hæðinni. Við vorum sem sagt komin að húsi innfæddra þar sem við ætluðum að eyða nóttinni. Þegar við komum að húsinu var strax tekið til við að hengja upp hengirúmin (Steinunn, Una, nú heimta ég skýringu á afhverju hengirúm er hengirúm en ekki hangirúm!) á veröndinni. Veröndin var yfirbyggður pallur út frá húsinu, sem var bara eitt stórt herbergi. Á palli, aðeins neðar en húsið sjálft, var svo eldhúskrókurinn. Hann var opinn svo að reykurinn frá eldavélinni lægi út. Eldavél er kannski ekki rétta orðið heldur frekar eldstæði. En þetta var sem sagt gömul eldavél, sem á var hlaðið viðarkubbum og svo kveikt í. Þannig að þessi gamla eldavél var endurnýtt í sitt gamla hlutverk, þó með öðrum hætti væri. Glöggir lesendur munu hafa áttað sig á að ég hef ekki minnst einu orði á salerni, en jú, salerni var þar, þ.e.a.s. allur skógurinn í kring. Og fólk baðar sig bara í ánni, enda mjög gott að stinga sér þar til sunds.

Íbúar hússins voru 6, pabbi, mamma, unglingsstrákur og þrjár yngri stelpur. Þær voru afskaplega vinalegar og léku sér við okkur og hrúguðust svo allar með okkur í
hengirúmin. Þeim þótti afskaplega gaman að skoða Lonely Planet bók sem við vorum með um ljósmyndun, og voru alltaf að spyrja hvar og hvað hlutirnir væru á myndunum. Þetta var myndarfjölskylda og gaman að sjá hvernig fólk býr þarna rétt við ána. Í húsinu var útvarp með geislaspilara sem var spilað á fullu blasti meðan við vorum þarna. Rafmagnið var fengið úr litlum rafgeymi, en það var bara fyrir útvarpið. Fólkið var afskaplega vinalegt og fyrst héldum við að það væru alltaf ferðamenn hjá þeim í heimsókn, en svo er víst ekki. Sú fjölskylda sem við fórum til hafði ekki tekið á móti neinum í rúman mánuð.

Við slökuðum á í hengirúmunum og spjölluðum við krakkana eftir hádegismat. Svo var haldið á fiskiveiðar með spjótum. Við fórum bæði fyrir og eftir kvöldmat. Það var magnað að vera að róa um á kanónum í myrkrinu með einungis tunglið til ad lýsa sér. Reyndar vorum við með vasaljós, en komumst fljótt að því að því lengur sem við hefðum kveikt á vasaljósinu því fleiri köngulær sáum við. Þannig að við slökktum bara.


Um kvöldið, þegar við vorum að taka okkur til fyrir svefninn hrekkur Lars, sænski vinur okkar, við og segir að það hafi risakónguló dottið á hann niður úr loftinu þar sem hann lá í hengirúminu en hefði svo horfið. Þegar við fórum svo að leita, sást hvorki tangur né tetur af henni. 10 mínútum seinna þegar Lars ætlaði svo að fara að leggjast upp í hengirúmið sitt aftur, lá kóngulóin þar í mestu makindum. Risastór og loðin. Þegar Edson, leiðsögumaðurinn okkar sá hana, tók hann trjágrein og barði hana svo fast ad hún fór í tvennt og skyldi eftir slímugar leifar á hengirúminu. Eftir að þetta allt var yfirstaðið sagði hann okkur að þetta hefði verið banana-kónguló, en hún er þekkt fyrir að lifa í bananaklösum og þegar menn eru að bera klasana á herðum sér bítur hún þá í hnakkann. Eitur hennar er svo sterkt að hver sá sem ekki fær hjálp innan 24 klukkustunda deyr. (Innskot: Meðfylgjandi mynd er fengin af netinu því engin mynd náðist af kvikindinu áður en hún fór í tvennt. Kóngulóin á þessari mynd er hins vegar mjög lík þeirri sem við sáum þetta kvöld. )

Eftir þessa hressandi lífsreynslu, reyndum við svo öll að fara að sofa. Þökkuðum okkar sæla að vera komin með moskító net yfir hengirúmin ef fleiri kóngulær skyldu taka upp á því að detta á okkur. Áður en við náðum að festa svefn heyrðum við einhver afskaplega drungaleg hljóð berast úr frumskóginum. Þau hljómuðu eins og einhvers konar þrumur, afskaplega óhugnanleg hljóð. Okkur var svo sagt ad þetta væru öskurapar eða svonefndir „Howler-monkeys". Þeir rymja og framkalla ótrúlega draugaleg hljóð sem berast vel um allan frumskóginn.

Það mætti því eiginlega segja að við hefðum kynnst þremur tegundum af öpum í ferðinni, en ekki tveimur eins og sagt er frá í Frumskógarnóttum II, þó við fengjum ekki að sjá öskurapana.


Morguninn eftir vöknuðum við, á lífi, við yndislegan kaffiilm. Hrærð egg og tekex ásamt kaffi var hressandi morgunmatur. Kvöddum fjölskylduna en heilsuðum hörðum bekkjum kanóans treglega aftur. Nú var ferðinni heitið lengra inn í frumskóginn og klukkutíma seinna komum við að dvalarstað næstu nóttar. Við lögðum bátnum upp að grasigrónum bakka og tókum til við að afferma kanóinn. Næsta verkefni var svo að útbúa gististað okkar yfir nóttina. Í raun var það ekki eins flókið og það hljómar, verknaðurinn fólst í því að hengja upp hengirúmin og strengja svo bláan plastdúk yfir herlegheitin til að verja okkur fyrir rigningunni.


Við lögðumst snemma til svefns þetta kvöld enda lítið að gera í miðjum frumskóginum eftir að myrkrið skall á og eldurinn kulnaður. Regndroparnir byrjuðu fljótlega að berja á bláa plastdúknum og í einu vetfangi höfðu þessir fáu dropar breyst í úrhellisrigningu. Leiðsögumennirnir okkar þurftu m.a.s. að létta og strekkja betur á plastdúknum því að hann var farinn að síga all nálægt hengirúmunum okkar. Ekki gekk eins auðveldlega að sofna og ég hafði vonast eftir en mér var sífellt hugsað til jagúar sögu nokkurrar sem Edson leiðsögumaður hafði sagt okkur fyrr um daginn. Þannig var það nefnilega að í litlu frumskógarþorpi var það vani kvennanna í þorpinu að hittast allar saman á hverjum degi og horfa á uppáhaldssápuóperuna sína í eina húsi þorpsins sem skartaði sjónvarpi. Að loknum æsispennandi sápuóperuþættinum heldur ein konan heim til sín ásamt dóttur sinni en það er svolítill spotti á milli húsanna. Ræðst þá ekki að konunni jagúar einn stór og mikill, dóttirin hleypur eins hratt heim og hún getur og lætur karl föður sinn vita. Þegar hann kemur á staðinn er jagúarinn að snæða sér á greyið konunni hans og hann getur ekkert að gert. Ekki fylgdi sögunni hvort einhver hefði reynt að sækja skotvopn en jagúarinn náðist ekki. Hengirúm mitt var yst í röðinni, næst skóginum, engin vörn fyrir utanaðkomandi jagúörum eða púmum. Edson hafði sagt að jagúararnir væru stór og mikil dýr sem hefðu aftur á móti engan hávaða. Eina hljóðið sem þú gætir mögulega heyrt var eitthvað lítið brak, máli sínu til stuðnings tók hann þurra trjágrein og braut hana í tvennt. Sagði að svona væri eina hljóðið sem þú gætir heyrt í jagúarnum. Um nóttina heyrði ég þetta hljóð í sífellu. Mér fannst það líka alltaf færast nær. Að sjálfsögðu vissi ég að þetta væri allt saman vitleysa í mér, að það væri svo sjaldgjæft að jagúar sæist nálægt mannabyggðum og afhverju ætti hann þá að vera að laumast upp að akkúrat þessum tjaldbúðum á akkúrat þessum tíma. Ekki hjálpuðu öskuraparnir sem rumdu í fjarska við að syngja mig í svefn. Þessar fortölur og skynsemi virkuðu ekki. Tókst samt að sofna eftir að hafa legið lengi vakandi, hlustandi í hengirúminu mínu.


Við vöknuðum svo aftur á lífi næsta morgun, okkur til mikillar gleði. Harðsuðum egg yfir opnum eldi og löguðum kaffi. Pökkuðum saman og héldum heim.

Já, ef þetta voru svo bara ekki eftir allt saman svolítið magnaðar nætur... Þessar fimm sem við eyddum í frumskóginum.

10 Comments:

Blogger This is all you have to know said...

Það er svo ótrúlega gaman að lesa þetta hjá ykkur! Alltaf þegar próf og verkefni eru að hellast yfir kíki ég hingað! Hægt að lifa sig svo inní frásagnirnar! III like it!

Skemmtið ykkur æðislega vel!! :D

4/5/06 20:06  
Anonymous Nafnlaus said...

Að hugsa sér að Jagúarar hætti sér ekki nálægt mannabyggðum, eins góðir bílar og þetta eru ;P En svona tæknilega séð voruð þið nokkuð nálægt mannabyggðum? Kannski var þetta alvöru jagúar.... hugleiðið það

5/5/06 00:28  
Anonymous Nafnlaus said...

Vá, öll þessi ævintýri, ég öfunda ykkur ekkert smá mikið! :) Þetta er svo æðislegt ferð hjá ykkur! :)

En með þessa könguló... úff.. ég fékk hroll! Ég hefði gjörsamlega farist úr hræðslu...

5/5/06 05:44  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er alveg makalaus frásagnargáfa hér á blogginu. Maður heldur niðri í sér andanum yfir 3. frásögninni úr frumskóginum og eins var frásögnin af rútuferðinni mjög spennandi!

Ég get vart beðið eftir því að hitta ykkur í eigin persónu og fá að heyra af ævintýrum ykkar.

Bestu kveðjur,
Sverrir

5/5/06 13:04  
Anonymous Nafnlaus said...

Þið ættuð nú bara að gefa út ferðaþætti! Frábær lesning. Ég lifi mig svo inn í frásagnirnar að ég færði tásurnar undir sængina svo enginn myndi bíta í þær. Maður veit greinilega aldrei með þessa jagúara. ;)

Knús frá mér,
Erna

5/5/06 19:38  
Blogger Sigurjón said...

Ég fæ hroll við það að lesa þessa færslu. Þessu köngurlóasaga er rosaleg.

5/5/06 20:03  
Blogger Steinunn said...

Hæhæ, úff! Ég segi það líka með köngulóna, og eins go ég var að segja við Unu áðan... Ég væri komin heim ef ég hefði séð svona könguló:p Segi svona:D:D Ég segi samt bara no comment í sambandi við hengirúmið. Svo af því að við Una vitum allt í heiminum þá hlýtur þetta að vera eitt af þessu sem Una veit. Una...?

5/5/06 20:53  
Anonymous Nafnlaus said...

Akkuru heita vettlingar ekki handklæði, hangikjöt ekki hengikjöt og brjósykur ekki sjúgur? Ég bara spyr.....

Frásagnir ykkar meistarapennana og stórhugsuða eru oft betri en spennubækurnar hans pabba! Mig á eftir að dreyma stórar köngulær sem bíta mig í tásurnar og Jagúar sem læðist undir sængina mína....Ég hlakka ekki til að sofna í kvöld þó rúmið mitt sé hlýtt og brynvarið köngulóm og öðrum kvikindum!

5/5/06 23:50  
Blogger Anna said...

Ég veit ekki hvert ég hefði farið ef svona flykki hefði dottið ofan á mig. Hvað þá hvert ég hefði farið þegar ég hefði komist að því að þetta væri baneitrað kvikindi! Þið eruð hugrökk krakkar mínir... Algjörir Indiana Jones's bara! Alltaf jafn gaman að fylgjast með ykkur.

6/5/06 09:11  
Anonymous Nafnlaus said...

VÁ!!! ég fann þessa síðu í gegnum 6.R. Þvílík ævintýri:D

8/5/06 14:04  

Skrifa ummæli

<< Home