miðvikudagur, mars 08, 2006

Ríkisstjóraheimsókn

Við Elín Lóa gistum ekki nema tvær nætur í Ciudad Bolívar. Þangað höfðum við farið til að festa kaup á flugferð yfir Angelfoss, hæsta foss jarðar. Þegar á hólminn var komið reyndist sú ferð raunar vera of dýr og tímafrek miðað við það sem við höfðum ætlað svo ekkert varð úr. Auk þess er vatnsmagnið í fossinum miklu minna á þessum tíma árs en yfir regntímann og fossinn því ekki jafntilkomumikill, getur jafnvel horfið í mistur áður en vatnið nær til jarðar. Jæja, í stað þess að svekkja sig segir maður bara eins og svo oft: „Við sjáum þetta bara næst.“

Útúrdúrinn til borgarinnar reyndist þó alls ekki tilgangslaus því við kynntumst ýmsu fólki á rölti okkar um borgina. Má þar líklegast helstan nefna Francisco Rangel, ríkisstjóra Bólívar-ríkis (eins af 23 ríkjum Venezúela) en einnig Simón eldri, sósíalista af guðs náð, og Simón yngri, fyrrverandi nemenda í Miami og ekki alveg jafnmikinn sósíalista.

Ef við tölum fyrst um borgina þá er Ciudad Bolívar einhver undarlegasta borg, sem við höfum komið til. Við komum seint um kvöld og fórum beint á hótel, ekki langt frá miðbænum. Morguninn eftir ákváðum við svo að taka leigubíl niður í miðbæ. Jæja, til að komast á aðaltorg venezúelskrar borgar þarf ekki annað en að láta skutla sér á „Plaza Bolívar“. Í hverjum einasta þéttbýliskjarna finnst torg kennt við sjálfstæðishetjuna miklu, Símon Bólívar, og er það yfirleitt aðaltorgið. Ciudad Bolívar er engin undantekning. Öfugt við aðrar borgir reyndist hins vegar ekkert svo auðvelt að finna torgið þar sem leigubíllinn skutlaði okkur ekki alveg alla leið. Um tíma héldum við jafnvel að leigubílstjórinn ætlaði að ræna öllu af okkur þar sem hann þræddi örmjó stræti og innkeyrslur án þess að nokkuð bólaði á svæði sem mætti kalla miðbæ. Auðvitað varð bílstjórinn svo sármóðgaður þegar við spurðum hvert í ósköpunum hann væri að fara. Loks fundum við þó torgið eftir að hafa rölt nokkuð um og reyndist miðbærinn þá vera pínulítill og samanþjappaður uppi á hæð í miðri borginni, en samt um leið stórmerkilegur í sögu Venezúela. (Seinna komumst við að því að Ciudad Bolívar er í raun algjör bílaborg, vel dreyfð enda af nógu plássi að taka.) Við Plaza Bolívar reyndist vera heljarmikil og falleg dómkirkja, reist skömmu eftir stofnun borgarinnar 1764. Meiri athygli vöktu aftur á móti tugir lögreglumanna og lögreglubílar, svona 50 til 60 stykki. Fljótlega komumst við að því að ríkisstjórinn væri að afhenda lögreglunni nýja lögreglubíla og -mótorhjól við mikla hátíðarathöfn.

Þar kom til sögunnar Simón eldri, mikill stuðningsmaður forseta Venezúela Hugo Chavezar og ríkisstjórnarinnar, og jafnframt stuðningsmaður hins vinstrisinnaða ríkisstjóra Bólívar-ríkis. Einhvern veginn hófust samræður milli okkar (lesist: Elínar Lóu spænskusnillings) og Simónar þessa, sem spurði forvitinn hvaðan við værum og hvað við værum að gera í Venezúela. Samtalið spannst um heima og geima en eftir skamma stund lauk því snöggt þar sem títtnefndur ríkisstjóri, Francisco Rangel, steig út úr ríkisstjórnarbyggingunni fyrir framan torgið. Mikil ringulreið myndaðist þar sem fréttamenn reyndu að ná tali og myndum af manninum. Með lagni náði kvenkyns ljósmyndari þessa bloggs meira að segja nokkrum góðum.

Hetja dagsins var hins vegar Simón sósíalisti, sem ákvað upp á sitt einsdæmi að ríkisstjórinn þyrfti öllu fremur að kynnast íslenskum stúlkum. Til að uppfylla þá hugmynd sína tók hann í höndina á Elínu Lóu og dró hana af stað, jafnframt sem hann reyndi að kalla á Rangel ríkisstjóra. Að lokum tókst honum að troða Elínu Lóu í gegnum mannþröngina og þar stóð hún ein hjá ríkisstjóranum, fyrir framan allar venezúelsku fréttamyndavélarnar, kossum var smellt, haldist var í hendur og spjallað um allt mögulegt. Því miður náði undirritaður ekki myndum af samtalinu en því var án efa sjónvarpað um allt landið enda var Elín Lóa sú eina sem náði tali af hinum hjartahlýja Francisco Rangel þennan eftirmiðdag. (Já, ég veit, hann lítur í alvöru út eins og ráðherra í herforingjastjórn.)

Eftir þetta steig ríkisstjórinn upp í einn lögreglubílanna og þaut á brott ásamt flotanum. Simón dró okkur hins vegar inn á skrifstofu, sem ríkisstjórinn stofnaði til að aðstoða borgarbúa (heitir á spænsku „Atencion a ciduano“). Þar sagði hann hugfanginn frá sósíalismanum og hinni illu bandarísku heimsvaldastefnu. Hann sagði að Elín Lóa yrði að gerast læknir því hún væri með svo stórt hjarta, jafnframt sem hann sýndi okkur hvernig stofna ætti sósíalískt samfélagsráð.

Angel eða ekki Angel?

En þar sem við vorum á höttunum eftir ferð yfir Angelfoss neyddumst við til að kveðja Simón sósíalista, sem var nú orðinn eins og gamall góðvinur okkar. Að lokum hjálpaði hann okkur aðeins með ferðina og talaði við son skrifstofustjórans, sem þekkti að sögn alla flugmenn borgarinnar. Birtist þá skyndilega, eins og engill af himnum ofan, eldri sonur skrifstofustjórans, sem einnig hét Simón. Simón yngri var 21 árs gamall sjálfstæður atvinnurekandi og fyrrverandi nemandi í Miami þar sem hann lærði ... jah, við skyldum því miður eiginlega aldrei hvað hann var að læra en hann kallaði það sjálfur „mass media“ og nefndi sem dæmi að hann gæti fengið vinnu við að lesa inn á teiknimyndir (?!). Simón sagðist geta reddað Angelfoss-ferðinni fyrir okkur þar sem vinur hans ynni á ferðaskrifstofu og hann hefði sjálfur unnið í ferðamannageiranum.

Lögðum við því af stað í langan leiðangur. Fyrst var förinni heitið inn á ferðaskrifstofu í næstu götu þar sem boðið var upp á ágæta en frekar dýra þriggja daga frumskógarferð að fossinum. Þar sem við vorum í tímaþröng og höfðum hugsað okkur að fara frekar í lengri ferð inn í Amazon sáum við okkur ekki annað fært en að afþakka tilboðið. Þá fór Simón með okkur á flugvöllinn þar sem við kíktum á aðrar ferðaskrifstofur en engin bauð upp á tiltölulega ódýra eins dags flugferð yfir fossinn, eins og við höfðum áhuga á. Eftir þetta bauðst Simón til að skutla okkur e-t að borða, sem við þáðum, og vegna ótrúlegrar hjálpsemi hans buðum við honum auðvitað að borða með okkur. Að því loknu tókum við leigubíl upp á rútustöð og athuguðum hvernig rútuferðum yfir til Santa Elena de Uairén við landamæri Venezúela og Brasilíu væri háttað en komumst að því að líklegast borgaði sig bara að taka rútu alla leið yfir til Manaus í Amazon. Eini gallinn væri sá að rútuferðin tæki litla 27 klukkutíma. Við ákváðum samt að leggja af stað til Manaus næsta kvöld.

Frá rútustöðinni tókum við leigubíl heim á hótel og röltum þaðan yfir á nálæga venezúelska skyndibitakeðju. Þetta var á valentínusardeginum og hópar af ungum krökkum fylltu hvern krók og kima staðarins. Þegar við höfðum pantað og sest niður settust við hliðina á okkur á næsta borð tveir strákar, 15 ára gamlir, og hóf annar þeirra að spjalla við okkur á ensku. Hann sagði að þeir væru í þriðja bekk í „high school“ og að þeir notuðu hvert tækifæri sem gæfist til að æfa sig í ensku við útlenska ferðamenn. Báðir ætluðu þeir að verða verkfræðingar og væru á leið í inntökupróf fyrir háskóla eftir eitt eða tvö ár. Okkur Elínu Lóu fannst það ansi magnað hjá strákunum að þora að gefa sig svona á tal við útlendinga enda hefði maður sjálfur varla þorað því heima. Gaman að sjá hversu metnaðarfullir þeir væru í að nýta hvert tækifæri sem þeir fengju þótt þau væru fá í samanburði við möguleika okkar Íslendinganna, sem höfum fengið meira og minna allt upp í hendurnar á okkar stuttu ævi.

Morguninn eftir fórum við svo á netið, fengum okkur að borða og skoðuðum flottasta nútímalistasafn, sem við höfum nokkurn tímann komið á. Heitir það Museo de Arte Moderno Jesús Soto, kennt við frægasta listamann Venezúela, Jesus Rafael Soto. Listasafnið á einnig verk eftir aðra nútímalistamenn, bæði málara og skúlptúrista og fannst okkur vel þess virði að heimsækja borgina þótt ekki hefði verið nema bara út af þessu safni.

Klukkan átta um kvöldið vorum við svo mætt á rútustöð borgarinnar, tilbúin til að stíga upp í rútu sem flytja átti okkur til Brasilíu.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já, þessi gaur virðist vera sannkölluð „herforingjastjórnartýpa“!

9/3/06 14:21  
Blogger Sigurjón said...

Já. Ótrúlega er þetta samt allt ævintýralegt.

9/3/06 16:38  

Skrifa ummæli

<< Home