sunnudagur, maí 14, 2006

Breytt plön

Það er víst svo að maður fær ekki allt sem maður vill í þessum heimi. Maður verður víst að velja og hafna. Planið var upprunanlega að fara til Titicaca vatns og þaðan yfir til Bólivíu. Við tókum það hins vegar saman að við myndum eyða rúmum 1/3 af tíma okkar þar í rútu, eða 60 tímum af 168, og þar að auki hefðum við ekki mikinn tíma til að stoppa í La Paz né neins staðar annars staðar í Bólivíu. Eins mikið og okkur langar til Bólivíu sáum við fram á að þurfa að hlaupa í gegnum hana auk þess sem fleiri rútutímar hljóma ekki mjög vel. Við ákváðum því að reyna að koma okkur sem fyrst upp til Ecuador í staðinn og eyða meiri tíma þar. Til að komast þangað tókum við 15 tíma rútu frá Cusco til Nazca og þaðan 7 tíma rútu til Lima þar sem við erum nú. Nú verður annaðhvort tekin 14 tíma rúta til Piura, sem er nálægt landamærum Perú og Ecuador eða leitað að ódýru flugi því satt best að segja erum við komin með ógeð á rútuferðum. Kannski sérstaklega þar sem að rúturnar hérna eru ekki eins góðar og í Chile og Argentínu. Kannski það eina góða er hversu mikið maður nær að lesa á þessum löngu rútuferðum og hlusta á alla tónlistina sem þú varst búinn að gleyma að væri inn á Ipodnum þínum (eða augnapotaranum eins og við köllum hann til að fólk skilji ekki hvað við séum að tala um).

Við stoppuðum í Nazca í heila 5 tíma. Komum klukkan 8 um morguninn og um leið og við stigum út úr rútunni réðust fullt að fólki að okkur. „Mister, misses flights over Nazca line?? Veeeery cheap!" og „Mister, misses Hotel? Hostel? Flights? Taxi? Taxi? only ten soles!" og „Mister, I recommend this and I recommand that..." á endanum þurftum við að flýja undan þessum hrægömmum og forðuðum okkur inn á næsta hótel. Svo heppilega vildi til að þetta hótel rak einnig ferðaskrifstofu sem við höfðum heyrt mælt með þannig að það endaði á að við vorum bókuð í útsýnisflug klukkan 9 um morguninn.


Flugið var magnað. Þótt flugmaðurinn hafi verið svolítið að drífa sig og tekið ansi margar skarpar beygjur kom það ekki að sök. Maður lætur ekki smá ógleði hafa áhrif á það að fljúga yfir Nasca línurnar. Það sem kom mér svo á óvart er hversu miklu minni þær eru heldur en ég ímyndaði mér. Það var samt ótrúlega gaman að sjá eins og kóngulóna og geimfarann. Kólibrí fuglinn var líka ótrúlega flottur og í raun allar myndirnar. Þessu flugi gleymi ég seint.

Machu Picchu var samt enn magnaðra. Eiginlega alveg ólýsanlegt. Mig langar strax aftur. Myndir og lýsing verða því miður að bíða því við verðum að hlaupa og kaupa rútumiða.

Myndin er fengin af http://www.dreamscape.com/morgana/gifs/nazspidr.jpg

6 Comments:

Blogger Steinunn said...

Ég var ekki búin að átta mig á því hvað þið eruð í rauninni búin með mikið af ferðinni:) Það var ekki fyrr en þú minntist á Ecuador sem ég fattaði...;)

14/5/06 22:24  
Blogger Sigurjón said...

Haha, augnapotari.
Bara ein spurning: Ætliði að taka rútuna heim frá Keflavíkurflugvelli?
(durumm tíss)

15/5/06 18:46  
Anonymous Nafnlaus said...

Guð minn almáttugur ég skal frekar sækja ykkur út á flugvöll en að láta ykkur taka rútuna heim....

15/5/06 18:57  
Blogger Steinunn said...

Hahahaha, snilld! Sendum þau með rútunni heim! Múhahahaha;)

16/5/06 19:59  
Anonymous Nafnlaus said...

Ætlið þið þá að tala bara útlensku þegar þið komið heim þannig að við skiljum ekki neitt sem þið segið?

Annars hlakka ég til að sjá ykkur aftur sykurpúðar! Fyrst tíminn hefur liðið svona hratt finnst ykkur bara svona gaman svo það er um að gera að eyða ekki tímanum í frekari rútuferðir heldur í að skoða sig um!!!

17/5/06 10:04  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

22/2/07 18:43  

Skrifa ummæli

<< Home