sunnudagur, júní 11, 2006

Ecuador 2 - Pólland 0

Væntingar voru miklar og spennan nánast óbærileg. Klukkan 13:00 þann 9.júní hættu nánast allir því sem þeir voru að gera, hvort sem það var vinna eða skóli, til að fylgjast með fyrsta leik landsliðs síns á HM gegn Póllandi. Landið lamaðist á meðan leiknum stóð. Þeir einu sem virtust vera að vinna voru þjónar á þeim stöðum þar sem leikurinn var sýndur, laganna verðir og sjúkrahússtarfsfólk. Stór skjár var settur upp á einni af stærri götum Quito og henni lokað, svipað var um fleiri borgir í Ecuador. Allt var gult, landsliðsbúningurinn var ráðandi klæðnaður þennan daginn. Klukkan 14:00 söng fólk með þjóðsöngnum og beið þess með eftirvæntinu að leikurinn yrði flautaður á. Langflestir voru bjartsýnir fyrir leikinn, allir vonuðust eftir sigri, að minnsta kosti jafntefli. Pólland hafði víst lýst því yfir að þeir væru ekkert hræddur við okkur, þeim var víst nær að vera svona vissir um sjálfan sig. Við unnum 2-0.

Um kvöldið var allt brjálað, allir staðir fullir af fólki í gulum bolum, syngjandi, dansandi. Nánast á hverju einasta götuhorni var fólk. Það er alveg ótrúlegt hvað fótboltinn sameinar landsmenn. Og ég get ekki annað en hugsað um hvort að þetta myndi gerast á Íslandi ef við myndum einhvern tíma komast á heimsmeistarakeppnina....

Nú er svo bara að vinna Costa Rica á fimmtudaginn og þá komumst við upp úr riðlinum með Þýskalandi. Vonandi!

fimmtudagur, júní 08, 2006

4 frábærir mánuðir

Þetta hafa verið frábærir fjórir mánuðir á flakki og við Snæbjörn erum barasta hið ágætasta teymi. Hann með sína ótrúlegu ratvísi og hæfni í kortalestri og ég með mitt spænskubabl. Það er svolítið skrýtið að vera ein eftir í mánuð hérna í Suður-Ameríkunni eftir að hafa eytt 4 mánuðum með einhverjum en Snæbjörn fór sem sagt heim í síðustu viku. Ég er væntanleg á klakann þann 1.júlí. Þetta er búin að vera æðisleg ferð en ég veit ekki hvort ég lendi í eins miklum ævintýrum ein þar sem ég ætla mér að eyða sem mestum tímanum hérna í Quito með skiptinemafjölskyldu og vinum. Þið fáið sem sagt kannski frekar bloggfærslur um menningu og siði hérna í Ecuador heldur en risakóngulóa-sögur.


Við komum hingað til Quito sunnudaginn 28.maí og tekið var á móti okkur með því að skála í kampavíni. Það var ósköp skrýtið að koma aftur í húsið sem ég bjó í fyrir 4 árum en á sama tíma ótrúlega gaman. Núna þegar ég er búin að venjast því líður mér hálft í hvoru eins og ég hafi aldrei farið. Afmælisdagurinn 30. maí var frekar rólegur, byrjuðum á því að fara upp í 4100 m hæð með kláf til að dást að borginni sem teygir sig út í allar áttir og um kvöldið var borðuð kaka og andlitinu mínu dýft ofaní hana eins og siður er hér í landi. Hún var að engu að síður borðuð með bestu lyst. Mig langar að þakka öllum sem sendu mér kveðju, mér þótti ósköp vænt um að heyra í ykkur.

Ég ætla mér nú samt að reyna að halda þessu bloggi eitthvað áfram á lífi þótt ég sé bara ein eftir og þótt færslurnar verði kannski með öðru sniði. Það verður bara ágætis tilbreyting.


Myndir teknar á kjötkvedjuhátíðinni í Río de Janeiro.