sunnudagur, júní 11, 2006

Ecuador 2 - Pólland 0

Væntingar voru miklar og spennan nánast óbærileg. Klukkan 13:00 þann 9.júní hættu nánast allir því sem þeir voru að gera, hvort sem það var vinna eða skóli, til að fylgjast með fyrsta leik landsliðs síns á HM gegn Póllandi. Landið lamaðist á meðan leiknum stóð. Þeir einu sem virtust vera að vinna voru þjónar á þeim stöðum þar sem leikurinn var sýndur, laganna verðir og sjúkrahússtarfsfólk. Stór skjár var settur upp á einni af stærri götum Quito og henni lokað, svipað var um fleiri borgir í Ecuador. Allt var gult, landsliðsbúningurinn var ráðandi klæðnaður þennan daginn. Klukkan 14:00 söng fólk með þjóðsöngnum og beið þess með eftirvæntinu að leikurinn yrði flautaður á. Langflestir voru bjartsýnir fyrir leikinn, allir vonuðust eftir sigri, að minnsta kosti jafntefli. Pólland hafði víst lýst því yfir að þeir væru ekkert hræddur við okkur, þeim var víst nær að vera svona vissir um sjálfan sig. Við unnum 2-0.

Um kvöldið var allt brjálað, allir staðir fullir af fólki í gulum bolum, syngjandi, dansandi. Nánast á hverju einasta götuhorni var fólk. Það er alveg ótrúlegt hvað fótboltinn sameinar landsmenn. Og ég get ekki annað en hugsað um hvort að þetta myndi gerast á Íslandi ef við myndum einhvern tíma komast á heimsmeistarakeppnina....

Nú er svo bara að vinna Costa Rica á fimmtudaginn og þá komumst við upp úr riðlinum með Þýskalandi. Vonandi!

fimmtudagur, júní 08, 2006

4 frábærir mánuðir

Þetta hafa verið frábærir fjórir mánuðir á flakki og við Snæbjörn erum barasta hið ágætasta teymi. Hann með sína ótrúlegu ratvísi og hæfni í kortalestri og ég með mitt spænskubabl. Það er svolítið skrýtið að vera ein eftir í mánuð hérna í Suður-Ameríkunni eftir að hafa eytt 4 mánuðum með einhverjum en Snæbjörn fór sem sagt heim í síðustu viku. Ég er væntanleg á klakann þann 1.júlí. Þetta er búin að vera æðisleg ferð en ég veit ekki hvort ég lendi í eins miklum ævintýrum ein þar sem ég ætla mér að eyða sem mestum tímanum hérna í Quito með skiptinemafjölskyldu og vinum. Þið fáið sem sagt kannski frekar bloggfærslur um menningu og siði hérna í Ecuador heldur en risakóngulóa-sögur.


Við komum hingað til Quito sunnudaginn 28.maí og tekið var á móti okkur með því að skála í kampavíni. Það var ósköp skrýtið að koma aftur í húsið sem ég bjó í fyrir 4 árum en á sama tíma ótrúlega gaman. Núna þegar ég er búin að venjast því líður mér hálft í hvoru eins og ég hafi aldrei farið. Afmælisdagurinn 30. maí var frekar rólegur, byrjuðum á því að fara upp í 4100 m hæð með kláf til að dást að borginni sem teygir sig út í allar áttir og um kvöldið var borðuð kaka og andlitinu mínu dýft ofaní hana eins og siður er hér í landi. Hún var að engu að síður borðuð með bestu lyst. Mig langar að þakka öllum sem sendu mér kveðju, mér þótti ósköp vænt um að heyra í ykkur.

Ég ætla mér nú samt að reyna að halda þessu bloggi eitthvað áfram á lífi þótt ég sé bara ein eftir og þótt færslurnar verði kannski með öðru sniði. Það verður bara ágætis tilbreyting.


Myndir teknar á kjötkvedjuhátíðinni í Río de Janeiro.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Fyrirheitna landið

Nú eru þó nokkrir dagar síðan við komum til Ecuador. Ótrúlegt að þessari ferð okkar sé að ljúka. Nú er aðeins vika í að Snabbi haldi heim á Frón og rétt rúmar 5 vikur í að ég komi. Undanfarna daga höfum við látið fara vel um okkur hérna í Guayaquil sem er stærsta borgin hér í Ecuador. Ferð okkar um þetta „heimaland“ mitt hófst með dvöl í suðurhluta landsins í borg sem heitir Loja. Loja er án efa ein af hreinustu borgum Suður-Ameríku. Þar er fólk sektað fyrir að fleygja rusli á götuna og þar flokka allir rusl. Til að auðvelda bæjarbúum flokkunina keyra ruslabílar um og spila lög til að aðgreina hvaða rusl fólk eigi nú að koma með út. T.d. er ákveðið lag fyrir lífrænan úrgang, annað fyrir endanvinnanlegt og svo framvegis. Allt þetta skilar sér í ótrúlega hreinni borg.

Frá Loja fórum við til bæjar sem heitir Vilcabamba sem er þekktur fyrir langlífi. Einstaklega margir bæjarbúar ná þeim merka áfanga að verða eldri en 100 ára. Sumir segja að vatninu sé að þakka, aðrir benda á loftslagið og rólegheitin sem einkenna þennan bæ. Hvað sem það er þá leið manni voðalega vel þarna. Ekki skrýtið að margur ferðalangurinn hafi orðið eftir og opnað nuddstofu eða hestaleigu.

Nú nálgumst við óðfluga heimaborg mína hér í Ecuador, höfuðborgina Quito. Við verðum komin þangað á sunnudaginn. Það er ekki laust við að ég sé með fiðring í maganum, ég hlakka bæði mikið til en kvíði líka fyrir að hitta alla aftur. Það er ósköp skrýtið að vera komin aftur en um leið eitthvað sem ég hef lengi beðið eftir.

Mynd: Machu Picchu þann 10. maí klukkan 9 um morgun.

sunnudagur, maí 14, 2006

Breytt plön

Það er víst svo að maður fær ekki allt sem maður vill í þessum heimi. Maður verður víst að velja og hafna. Planið var upprunanlega að fara til Titicaca vatns og þaðan yfir til Bólivíu. Við tókum það hins vegar saman að við myndum eyða rúmum 1/3 af tíma okkar þar í rútu, eða 60 tímum af 168, og þar að auki hefðum við ekki mikinn tíma til að stoppa í La Paz né neins staðar annars staðar í Bólivíu. Eins mikið og okkur langar til Bólivíu sáum við fram á að þurfa að hlaupa í gegnum hana auk þess sem fleiri rútutímar hljóma ekki mjög vel. Við ákváðum því að reyna að koma okkur sem fyrst upp til Ecuador í staðinn og eyða meiri tíma þar. Til að komast þangað tókum við 15 tíma rútu frá Cusco til Nazca og þaðan 7 tíma rútu til Lima þar sem við erum nú. Nú verður annaðhvort tekin 14 tíma rúta til Piura, sem er nálægt landamærum Perú og Ecuador eða leitað að ódýru flugi því satt best að segja erum við komin með ógeð á rútuferðum. Kannski sérstaklega þar sem að rúturnar hérna eru ekki eins góðar og í Chile og Argentínu. Kannski það eina góða er hversu mikið maður nær að lesa á þessum löngu rútuferðum og hlusta á alla tónlistina sem þú varst búinn að gleyma að væri inn á Ipodnum þínum (eða augnapotaranum eins og við köllum hann til að fólk skilji ekki hvað við séum að tala um).

Við stoppuðum í Nazca í heila 5 tíma. Komum klukkan 8 um morguninn og um leið og við stigum út úr rútunni réðust fullt að fólki að okkur. „Mister, misses flights over Nazca line?? Veeeery cheap!" og „Mister, misses Hotel? Hostel? Flights? Taxi? Taxi? only ten soles!" og „Mister, I recommend this and I recommand that..." á endanum þurftum við að flýja undan þessum hrægömmum og forðuðum okkur inn á næsta hótel. Svo heppilega vildi til að þetta hótel rak einnig ferðaskrifstofu sem við höfðum heyrt mælt með þannig að það endaði á að við vorum bókuð í útsýnisflug klukkan 9 um morguninn.


Flugið var magnað. Þótt flugmaðurinn hafi verið svolítið að drífa sig og tekið ansi margar skarpar beygjur kom það ekki að sök. Maður lætur ekki smá ógleði hafa áhrif á það að fljúga yfir Nasca línurnar. Það sem kom mér svo á óvart er hversu miklu minni þær eru heldur en ég ímyndaði mér. Það var samt ótrúlega gaman að sjá eins og kóngulóna og geimfarann. Kólibrí fuglinn var líka ótrúlega flottur og í raun allar myndirnar. Þessu flugi gleymi ég seint.

Machu Picchu var samt enn magnaðra. Eiginlega alveg ólýsanlegt. Mig langar strax aftur. Myndir og lýsing verða því miður að bíða því við verðum að hlaupa og kaupa rútumiða.

Myndin er fengin af http://www.dreamscape.com/morgana/gifs/nazspidr.jpg

þriðjudagur, maí 09, 2006

Á leid til Machu Picchu

Bara til ad láta vita af okkur thá erum vid sem stendur stödd í borginni Cuzco í Perú og á morgun verda inkarústirnar Macchu Picchu heimsóttar. Svo er stefnan sett á Bólivíu. Cuzco er í um 3400 m haed og thví mikil haetta á haedarveiki. Vid höfum hins vegar alveg sloppid vid thad vesen thó ad vid séum frekar andstutt eftir ad hafa labbad upp eina litla brekku. Bakpokarnir virka líka ennthá thyngri en their eru. En thad er víst bara edlilegt.

Lengra verdur thetta ekki, enda bara lítill póstur til ad láta ykkur vita ad vid erum á lífi. Og thad gódu lífi.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Frumskógarnætur III

Síðasti hluti færslunnar með hinum einstaklega klysjulega titli, Frumskógarnætur, sem gæti eins hentað væmnum ástarreifara, lýsir aðallega 3 dögum og tveimur nóttum í þessari ágætu ferð.

Við lögðum af stað snemma um morgun og hristumst og skókumst um á litlum mótor-kanóa í u.þ.b. 4 tíma. Við vorum því mjög fegin þegar við loksins fengum að stíga úr bátnum og upp á þurrt land. Aðallega vorum við samt þakklát fyrir að þurfa ekki að setjast alveg strax á hörðu trébekkina í bátnum aftur. Upp frá litlu plankabryggjunni sáum við tréhús standa upp á hæðinni. Við vorum sem sagt komin að húsi innfæddra þar sem við ætluðum að eyða nóttinni. Þegar við komum að húsinu var strax tekið til við að hengja upp hengirúmin (Steinunn, Una, nú heimta ég skýringu á afhverju hengirúm er hengirúm en ekki hangirúm!) á veröndinni. Veröndin var yfirbyggður pallur út frá húsinu, sem var bara eitt stórt herbergi. Á palli, aðeins neðar en húsið sjálft, var svo eldhúskrókurinn. Hann var opinn svo að reykurinn frá eldavélinni lægi út. Eldavél er kannski ekki rétta orðið heldur frekar eldstæði. En þetta var sem sagt gömul eldavél, sem á var hlaðið viðarkubbum og svo kveikt í. Þannig að þessi gamla eldavél var endurnýtt í sitt gamla hlutverk, þó með öðrum hætti væri. Glöggir lesendur munu hafa áttað sig á að ég hef ekki minnst einu orði á salerni, en jú, salerni var þar, þ.e.a.s. allur skógurinn í kring. Og fólk baðar sig bara í ánni, enda mjög gott að stinga sér þar til sunds.

Íbúar hússins voru 6, pabbi, mamma, unglingsstrákur og þrjár yngri stelpur. Þær voru afskaplega vinalegar og léku sér við okkur og hrúguðust svo allar með okkur í
hengirúmin. Þeim þótti afskaplega gaman að skoða Lonely Planet bók sem við vorum með um ljósmyndun, og voru alltaf að spyrja hvar og hvað hlutirnir væru á myndunum. Þetta var myndarfjölskylda og gaman að sjá hvernig fólk býr þarna rétt við ána. Í húsinu var útvarp með geislaspilara sem var spilað á fullu blasti meðan við vorum þarna. Rafmagnið var fengið úr litlum rafgeymi, en það var bara fyrir útvarpið. Fólkið var afskaplega vinalegt og fyrst héldum við að það væru alltaf ferðamenn hjá þeim í heimsókn, en svo er víst ekki. Sú fjölskylda sem við fórum til hafði ekki tekið á móti neinum í rúman mánuð.

Við slökuðum á í hengirúmunum og spjölluðum við krakkana eftir hádegismat. Svo var haldið á fiskiveiðar með spjótum. Við fórum bæði fyrir og eftir kvöldmat. Það var magnað að vera að róa um á kanónum í myrkrinu með einungis tunglið til ad lýsa sér. Reyndar vorum við með vasaljós, en komumst fljótt að því að því lengur sem við hefðum kveikt á vasaljósinu því fleiri köngulær sáum við. Þannig að við slökktum bara.


Um kvöldið, þegar við vorum að taka okkur til fyrir svefninn hrekkur Lars, sænski vinur okkar, við og segir að það hafi risakónguló dottið á hann niður úr loftinu þar sem hann lá í hengirúminu en hefði svo horfið. Þegar við fórum svo að leita, sást hvorki tangur né tetur af henni. 10 mínútum seinna þegar Lars ætlaði svo að fara að leggjast upp í hengirúmið sitt aftur, lá kóngulóin þar í mestu makindum. Risastór og loðin. Þegar Edson, leiðsögumaðurinn okkar sá hana, tók hann trjágrein og barði hana svo fast ad hún fór í tvennt og skyldi eftir slímugar leifar á hengirúminu. Eftir að þetta allt var yfirstaðið sagði hann okkur að þetta hefði verið banana-kónguló, en hún er þekkt fyrir að lifa í bananaklösum og þegar menn eru að bera klasana á herðum sér bítur hún þá í hnakkann. Eitur hennar er svo sterkt að hver sá sem ekki fær hjálp innan 24 klukkustunda deyr. (Innskot: Meðfylgjandi mynd er fengin af netinu því engin mynd náðist af kvikindinu áður en hún fór í tvennt. Kóngulóin á þessari mynd er hins vegar mjög lík þeirri sem við sáum þetta kvöld. )

Eftir þessa hressandi lífsreynslu, reyndum við svo öll að fara að sofa. Þökkuðum okkar sæla að vera komin með moskító net yfir hengirúmin ef fleiri kóngulær skyldu taka upp á því að detta á okkur. Áður en við náðum að festa svefn heyrðum við einhver afskaplega drungaleg hljóð berast úr frumskóginum. Þau hljómuðu eins og einhvers konar þrumur, afskaplega óhugnanleg hljóð. Okkur var svo sagt ad þetta væru öskurapar eða svonefndir „Howler-monkeys". Þeir rymja og framkalla ótrúlega draugaleg hljóð sem berast vel um allan frumskóginn.

Það mætti því eiginlega segja að við hefðum kynnst þremur tegundum af öpum í ferðinni, en ekki tveimur eins og sagt er frá í Frumskógarnóttum II, þó við fengjum ekki að sjá öskurapana.


Morguninn eftir vöknuðum við, á lífi, við yndislegan kaffiilm. Hrærð egg og tekex ásamt kaffi var hressandi morgunmatur. Kvöddum fjölskylduna en heilsuðum hörðum bekkjum kanóans treglega aftur. Nú var ferðinni heitið lengra inn í frumskóginn og klukkutíma seinna komum við að dvalarstað næstu nóttar. Við lögðum bátnum upp að grasigrónum bakka og tókum til við að afferma kanóinn. Næsta verkefni var svo að útbúa gististað okkar yfir nóttina. Í raun var það ekki eins flókið og það hljómar, verknaðurinn fólst í því að hengja upp hengirúmin og strengja svo bláan plastdúk yfir herlegheitin til að verja okkur fyrir rigningunni.


Við lögðumst snemma til svefns þetta kvöld enda lítið að gera í miðjum frumskóginum eftir að myrkrið skall á og eldurinn kulnaður. Regndroparnir byrjuðu fljótlega að berja á bláa plastdúknum og í einu vetfangi höfðu þessir fáu dropar breyst í úrhellisrigningu. Leiðsögumennirnir okkar þurftu m.a.s. að létta og strekkja betur á plastdúknum því að hann var farinn að síga all nálægt hengirúmunum okkar. Ekki gekk eins auðveldlega að sofna og ég hafði vonast eftir en mér var sífellt hugsað til jagúar sögu nokkurrar sem Edson leiðsögumaður hafði sagt okkur fyrr um daginn. Þannig var það nefnilega að í litlu frumskógarþorpi var það vani kvennanna í þorpinu að hittast allar saman á hverjum degi og horfa á uppáhaldssápuóperuna sína í eina húsi þorpsins sem skartaði sjónvarpi. Að loknum æsispennandi sápuóperuþættinum heldur ein konan heim til sín ásamt dóttur sinni en það er svolítill spotti á milli húsanna. Ræðst þá ekki að konunni jagúar einn stór og mikill, dóttirin hleypur eins hratt heim og hún getur og lætur karl föður sinn vita. Þegar hann kemur á staðinn er jagúarinn að snæða sér á greyið konunni hans og hann getur ekkert að gert. Ekki fylgdi sögunni hvort einhver hefði reynt að sækja skotvopn en jagúarinn náðist ekki. Hengirúm mitt var yst í röðinni, næst skóginum, engin vörn fyrir utanaðkomandi jagúörum eða púmum. Edson hafði sagt að jagúararnir væru stór og mikil dýr sem hefðu aftur á móti engan hávaða. Eina hljóðið sem þú gætir mögulega heyrt var eitthvað lítið brak, máli sínu til stuðnings tók hann þurra trjágrein og braut hana í tvennt. Sagði að svona væri eina hljóðið sem þú gætir heyrt í jagúarnum. Um nóttina heyrði ég þetta hljóð í sífellu. Mér fannst það líka alltaf færast nær. Að sjálfsögðu vissi ég að þetta væri allt saman vitleysa í mér, að það væri svo sjaldgjæft að jagúar sæist nálægt mannabyggðum og afhverju ætti hann þá að vera að laumast upp að akkúrat þessum tjaldbúðum á akkúrat þessum tíma. Ekki hjálpuðu öskuraparnir sem rumdu í fjarska við að syngja mig í svefn. Þessar fortölur og skynsemi virkuðu ekki. Tókst samt að sofna eftir að hafa legið lengi vakandi, hlustandi í hengirúminu mínu.


Við vöknuðum svo aftur á lífi næsta morgun, okkur til mikillar gleði. Harðsuðum egg yfir opnum eldi og löguðum kaffi. Pökkuðum saman og héldum heim.

Já, ef þetta voru svo bara ekki eftir allt saman svolítið magnaðar nætur... Þessar fimm sem við eyddum í frumskóginum.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Hinn stóri heimur

Þegar við stigum út úr rútunni hér í Arica klukkan 6 í morgun, leið okkur eins og við hefðum hlaupið fyrir lest á fullri ferð. 41 klukkustunda ferðalag í lélegum rútum fer ekki vel með mann. Við bókstaflega skriðum inn á næsta hótel þar sem við sváfum svo til klukkan fjögur í dag.

Af illri nauðsyn höfum við nú tekið strikið frá Mendoza beint til Lima til að heimsækja ræðismanninn þar, sem er með vegabréf fyrir Snæbjörn. Þetta ferðalag innihélt því, 7 klukkutíma í lítilli rútu þar sem fæturnir okkar komumst ekki einu sinni fyrir, frá Mendoza til Santiago. Bið í rúma tvo tíma eftir rútu frá Santiago til Arica, en þar sem var fullt í flestar rútur á þessari leið fengum við ekki neitt spes sæti í ekkert neitt spes rútu. Í henni var svo skrölt í 31 klukkutíma, einn dag og tvær nætur. Eins og planið var fyrst ætluðum við að taka strax rútu yfir til Lima en ef satt skal segja meikuðum við það bara ekki. 18 tímar í viðbót hljómuðu ekkert sérlega vel á því augnabliki.

Þessi rútuferð var hins vegar einstaklega athyglisverð þótt hún hafi verið svona erfið. Við höfum hingað til leyft okkur að taka aðeins betri rútur þegar við förum í sólahringsrútuferðir. Í þeim rútum geturðu lagt sætið ansi langt aftur, sætin eru breiðari og þægilegri, aðeins þrjú sæti í hverri röð í staðinn fyrir 4 sæti í venjulegum rútum, og það er þjónusta um borð. Í einni ferðinni fengum við meira að segja freyðivín áður en við fórum að sofa. Algjör lúxus sem sagt sem kostar ekkert voðalega mikið meira.

Vegna langrar fríhelgar var hins vegar ekki mikið laust þegar við komum til Santiago frá Mendoza og við þáðum með þökkum þau tvö sæti sem eftir voru, þótt þau væru aftast og við bjuggumst alveg eins við því að þurfa að sitja hliðina á rútuklóstinu í 30 klukkustundir, sem aldrei er sérlega ánægjulegt. Þegar við stigum svo upp í rútuna tókum við eftir að hún var ekkert sérlega hrein. Eiginlega bara soldið ógeðslega skítug. Við létum hins vegar ekki hugfallast þar sem að við uppgötvuðum að klósettið var í miðri rútunni og því ekki hliðina á sætunum okkar. Engin skorkvikindi virtust heldur vera á veggjunum þannig að þar var annar plús. Hinsvegar reyndist erfitt að sofa í þessari rútu og skítalykt af öllu saman, sætunum sem og teppunum og koddunum sem okkur voru lánuð. Á ferðinni var okkur tvisvar gefnar þurrar brauðbollur með sveittri ostsneið sem saman bragðaðist eins og rúsína, eins óskiljanlega og það hljómar. Í eina skiptið sem rútan stoppaði einhvers staðar annars staðar en í sveittri Pullmann-sjoppu (rútufyrirtækið hét Pullmann) vorum við svo sniðug að stökkva inn í þennan svaka súpermarkað og versla nesti fyrir restina af ferðinni (þá voru enn rúmir 18 tímar eftir). Sem betur fer því að fólkið í rútunni virtist vera orðið ansi svangt þegar leið á daginn og horfði svo öfundaraugum á okkur og blótaði okkur eflaust í hljóði. Við létum það ekkert á okkur fá og borðum okkar samlokur og ávexti með bestu lyst.

Okkur brá örlítið í brún þegar við vöknuðum eftir fyrstu nóttina því að rútuþjónninn okkar (hér eru alltaf þjónar í rútunum sem færa manni kaffi, brauðbollur etc. og upplýsa þig um stöðu mála) virtist vera soldið glaseygður. Við fylgdumst með honum í smá stund og komumst að lokum að þeirri niðurstöðu að maðurinn hlyti að vera drukkinn. Hann hreyfðist óheyrilega mikið með rútunni og þurfti að einbeita sér mikið þegar hann helti gosi í glösin hjá okkur. Í langan tíma eftir á fylgdumst við með hvort að rútan væri ekki á réttum vegarhelming. Sem betur fer virtist rútubílstjórinn ekki hafa verið að staupa sig með rútuþjóninum.

Þessi rútuferð var sem sagt að mörgu leyti áhugaverð sérstaklega vegna fólksins sem ferðast með okkur. Það var soldið magnað að sjá muninn á fólkinu sem ferðast í ódýrari rútunum og svo þeim sem hafa efni á að borga aðeins meira. Viðskiptamenn og fínni frúr eru algeng sjón í dýrari rútunum á meðan við urðum ekki vör við neinn í þeirri líkingu í rútunni okkar. Það sem merkilegast var í þessari ferð var án efa sígauna kona sem ferðaðist með okkur. Hún ferðaðist reyndar bara ein með okkur en á rútustöðinni höfðum við séð hana með fjölskyldu sinni. Kannski hefðum við ekki gert okkur grein fyrir að þetta væri sígaunafjölskylda en kona að nafni Filomena, sem við kynntumst á rútustöðinni, sagði okkur frá þeim og varaði okkur við að þau væri mörg hver afskaplega slungin í vasaþjófnaði.

Flökkuþjóð þessi sem kallast hér gitanos eða romanos lifir enn í tjöldum og flakkar á milli borga yfirleitt eftir árstíðum. Þeir hafa einstaklega slæmt orð á sér, bæði vegna þjófnaða og pretta og svo eru þeir að sjálfsögðu þjóð sem vilja ráða sér sjálfir og passa ekki inn í þá þjóðfélagsmynd sem fyrir er. Þeir eiga það líka til að planta sér þar sem þeim sýnist án þess að virða landa- eða eignamörk. Fjölskyldan sem við sáum á rútustöðinni í Santiago samanstóð af mömmu sem var ansi vel komin til ára sinna, en það var hún sem að ferðaðist með okkur, dóttur hennar sem virtist vera um 15-16 ára. Lítill framhleypinn strákur var líka með þeim og okkur grunar að hann sé sonur 15-16 ára stelpunnar. Svo voru þarna 3-4 konur í viðbót en við sáum hins vegar bara einn karlmann á svæðinu, um 35-40 ára, en hann kom ekki inn í hópinn fyrr en seinna. Í kringum þau á rútustöðinni myndaðist stór hringur, ekki af fólki, heldur stórt hringlaga svæði sem enginn þorði að hætta sér nálægt. Þau höfðu voðalega hátt og voru ekkert að lækka niður í sér. Þau töluðu saman á Romani tungumáli sem við skyldum hvorki upp né niður í. Unglingsstelpan vatt sér upp að lögreglumanni sem stóð þar nálægt og spurði, eða nánast öskraði á greyið lögregluþjóninn, hvar maðurinn sem við sáum svo síðar væri. Hann virtist þá hafa verið færður í yfirheyrslu af lögreglunni. Þegar hann kom loksins á svæðið var hann voðalega rogginn og mikill með sig, algjör macho. Konurnar voru auðþekkjanlegar af síðum pilsum og föt þeirra allra voru mjög marglit. Þau sátu öll ofan á stórum pokum sem innihélt eflaust aleigu þeirra. Filomena benti okkur á að þetta væru eflaust með fátækari sígaunum svæðisins þar sem að margir þeirra eiga nú pallbíla sem þeir flakka um á. Fyrst héldum við að öll fjölskyldan myndi ferðast með okkur í rútu en þegar allt kom til alls var það aðeins gamla konan. Hún sat ská á móti okkur hinum megin við ganginn og fengum við því gott útsýni yfir aðfarir hennar í rútunni.

Sígauna kona þessi var eflaust að nálgast 70 árin, tannlaus en hafði þó yfir gervitönnum að ráða þótt við sæjum hana aldrei taka þær úr sér né setja þær upp í sig. Feitlagin var hún og íklædd víðum pilsi, það ytra hvítt með fjólubláu blómamunstri og hið innra svar-og hvítmunstrað. Prjónapeysa hennar var skærbleik með svörtu mynstri og yfir allt saman var hún klædd allt of stórum svörtum leðurjakka. Sokkar og hennar voru marglitir, en í þeim mátti finna liti eins og skærgrænan, gulan og neon bleikan. Til að setja punktinn yfir I-ið var hún í gullskóm. Henni var mjög umhugað um hár sitt og var alltaf að laga það. Hárið sjálft var rauðleitt og stuttklippt. Hún hafði tvær fléttur frá sittihvorri hliðinni sem hún batt í hnút í hnakkanum. Yfir það setti hún klemmu í líku fjöðurs. Utan um höfuðið vafði hún svo skærgrænni slæðu með silfurpallíettum. Rauðu hliðartöskuna sína faldi hún undir öðru pilsinu sem gerði það að verkum að hún leit ennþá bústnari út. Já, þetta var litrík kona.

Fólk var almennt hrætt við greyið konuna, enda var hún nú ekki frýnileg á að líta með hvassan og hörkulegan svip sem olli því að fólk forðaðist að vera nálægt henni. Hún byrjaði á að setjast í vitlaust sæti og maðurinn sem átti að sitja þar þorði ekki einu sinni að minnast á það. Það endaði líka á því að hún fékk að halda tveimur sætum út af fyrir sig alla ferðina. Hamstraði svo 4-5 kodda og 3 teppi. Hún fékk líka tvær brauðbollur. Meðferðis hafði hún tveggja lítra kókflösku sem eitthvað sterkt hafði verið blandað út í og bragðaði á því í tíma og ótíma. Þegar allt kom til alls var hún svo bara ágætis ferðafélagi, þótt við hefðum nú ekkert spjallað við hana, var gaman að hafa hana svona nálægt til að sjá hætti hennar og framkomu, þótt í mýflugumynd væri.

Þessi rútuferð var því, þótt erfið væri, einstaklega áhugaverð. Við gerðum okkur einhvern veginn enn betur grein fyrir því hversu stór og margvíslegur þessi heimur er sem við lifum í og hversu lítinn hluta hans maður þekkir.