sunnudagur, janúar 22, 2006

9 dagar

Ef allt gengur að óskum, og ég fótbrýt mig ekki í þessari hálku, þá erum við á leiðinni út eftir 9 daga. Ég get ekki neitað því að smá stress hnútur hafi hreiðrað um sig í maganum á mér sem gerir mér erfiðara um svefn á næturnar. Sem betur fer virðist spennan ætla að hafa yfirhöndina.

Grófa planið (eins og sést á kortinu hér til hliðar sem Snæbjörn er búinn að vera að dunda sér við í Photoshop;) er að fljúga til Caracas, kíkja á borgina, skella sér á einhverja af eyjunum í karabíska hafinu úti fyrir ströndum Venezuela og sleikja sólina og busla í sjónum í 1-2 daga. Fara þaðan að skoða Englafoss sem er hæsti foss í heimi. Þaðan myndum við svo koma okkur yfir til Brazilíu, og halda í ævintýraför inn í Amazon frumskóginn frá borginni Manaus. Við vonumst til að verða þar í u.þ.b. viku og fljúga svo þaðan til Río de Janeiro (sem er 6 og hálfs tíma flug innanlands!!) og skoða okkur um á kjötkveðjuhátíðinni þar. Eftir Río de Janeiro er ekki alveg fastmótað hvert við förum eða hvað við gerum. Við ætlum okkur allavega að skoða Iguazú fossa á landamærum Brasilíu, Argentínu og Paraguay og ætli við förum ekki yfir til Argentínu þaðan.
En það kemur allt saman í ljós:)

Svo er bara að vona að við komumst á almennileg netkaffihús til að segja ykkur frá hvar við erum og setja inn myndir.

Á leiðinni út stoppum við hálfan dag í London, hvað á maður að skoða þegar maður kemur í borgina klukkan 12:00 á hádegi og fer klukkan 06:00 morguninn eftir?

Allar tillögur verða metnar og ígrundaðar :)

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Upphaf Suður-Ameríkuferðarinnar nálgast nú óðfluga. Við hefjum ferðina með morgunflugi til Lundúna þriðjudaginn 31. janúar og eldsnemma morguninn eftir höldum við áfram til Venesúela með smástoppi í Lissabon. Eftir nákvæmlega tvær vikur verðum við því nýlent í Caracas í Venesúela og líklegast að leita okkur að gistingu. Nákvæmt framhald mun sem sagt ekki ráðast fyrr en á staðinn er komið enda viljum við alls ekki binda hendur okkar um of með fyrir fram niðurnjörvaðri áætlun.

Lesendum (og okkur sjálfum) til hægðarauka höfum við þó smellt inn korti sem ætti að gefa grófa mynd af leið okkar um álfuna. Næstu daga munum við svo lauma inn bloggfærslum um ferðaplön okkar með hliðsjón af kortinu góða.